þriðjudagur, desember 25, 2007

Gleðileg Jól

Allir saman.

sunnudagur, desember 16, 2007

Lítið

Vil byrja á því að þakka fyrir afmæliskveðjurnar alveg sama í hvernig formi þær bárust. Boston var fín. Vorum fullstutt svo ég geti gert greinargóða lýsingu á borginni en ég er byrjaður að vita hvar helstu búðirnar eru.

Annars er búið að vera mjög rólegt. Er búinn að vera á fullu að vinna upp á Mánabrekku. Krakkarnir að komast í jólaskap og það er byrjað að smita frá sér.

Ég er samt eitthvað týndur, kann ekki að hafa svona mikin frítíma í Desember. Svo ég byrjaði að hlaupa og lyfta á fullu aftur.

Lítið að segja að þessu sinni. Seinna.

föstudagur, desember 07, 2007

7. desember

Afmælisdagur móður minnar. Rétt að óska henni til hamingju með daginn.

Prófdagur hjá mér. Próf í Heimspekilegum forspjallsvísindum bíður úrlausnar eftir um það bil tvo klukkutúma. Var að rifja það upp við sjálfan mig að það er komið eitt og hálft ár síðan ég fór síðast í lokapróf. Hef síðan þá skilað endalausum ritgerðum. Af þeim sökum er ég spenntari fyrir prófinu en oft áður.

Eftir prófið flýg ég svo út til Boston í helgarferð með móður minni og föður. Þar mun ég eyða afmælisdeginum mínum í góðu yfirlæti og flýg svo heim á sunnudaginn.



Mikið að gera í dag.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Afreksmaður?

Það er hægt að komast að undarlegustu hlutum um sjálfan sig með því einu að google-a sig.

Rakst á þetta áðan:


Þið getið smellt á myndina svo hún stækki.

Svo þið haldið ekki að ég sé að skálda þetta er hérna að finna tengil.

Ég vissi aldrei að ég hafði verið á einhverri afrekaskrá FRÍ árið 2006, hvað þá að ég hefði verið þar efstur.

En ég hef einstaklega gaman að því svona eftir á.

(Mikil blogg virkni mín helst í hendur við það að ég á að vera læra.)

Miðvikudagar

Eru einfaldlega bestu dagar vikurnar. Nú spyrð þú, lesandi góður, afhverju er það?

Það er einfaldlega vegna þess að þá hittist frábær vinahópur og iðkar hina göfugu íþrótt fótbolta. Hópurinn saman stendur af gamla Gróttu-genginu auk nokkra valinkunnra gestaleikmanna.

Við erum kannski aðeins stærri, feitari, klunnalegri og úthaldsminni en við skemmtum okkur alveg jafn vel og þegar við vorum pollar.



Vörnin verður á svæðinu.



Sóknin á harma að hefna frá síðasta leik varnar á móti sókn, svo þeim veitir ekki af því að mæta allir í kvöld.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Hvað er að ske?

Ætlunin var að reyna að bíða með það að koma með færslu hingað í mánuð. En ég er bara of duglegur að blogga til þess.

Aðalástæðan fyrir letinni hefur verið ritgerðarsmíði, en ég á oft erfitt með það að koma með færslu þegar ég að er að skrifa á fullu. Ritgerðin mín fjallaði um þjóðaratkvæðagreiðslur og var fyrir kúrsinn lýðræði á 20. öld. Þessi ritgerð var í stað prófs og þess vegna var vandað til verksins.

Við vinnu þessara ritgerðar komst ég að því að stjórnarskráin er með gallaðari plöggum sem þessi þjóð á og að engin vill vinna bót á því. Þá síst stjórnmálamenn sem eru í kjöraðstæðu til að breyta henni.

Þar sem ritgerðin í þessum kúrs gilti sem próf þá er einungis eitt próf á dagskránni. Það er á afmælisdegi móður minnar þann 7. desember næst komandi, en prófið er úr gleði áfanganum Heimspekileg forspjallsvísindi. Ég er ekki í prófum á afmælisdaginn minn sem er sá 8. desember og get ég ekki nefnt ykkur það ár sem það gerðist síðast. Það verður erfitt að díla við það enda er ég gríðarlega vanafastur maður.

Meira var það ekki.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Leiksigur

Vinnustaðurinn minn, Leikskólinn Mánabrekka, fagnaði 11 ára afmæli um daginn.

Að því tilefni var boðið upp á húllumhæ. Þar á meðal var ákveðið að setja upp á leikritið Geiturnar þrjár, en bókina þekkja flestir til. Ráðið var í hlutverkin á starfsmannafundi sem ég var ekki viðstaddur. Endaði það auðvita með því að ég var látinn í hlutverk. Féll mér í skaut hlutverk Kiðakiða, yngstu geitarinnar, mér til mikillar ánægju.

En á sýningu kom í ljós að ég hef falda hæfileika. Ég er bara ágætis leikari og óhætt er að kalla framgöngu mína ekkert annað en leiksigur. Hef þó ekki hug á því að gera þetta að starfsframa en það er gott að vita að maður býr að þessu ef sagnfræðin er ekkert að virka.

Búningurinn var ekki af verri toganum því það kom í ljós að ef þú snýrð við 66° norður kraftgalla þá ertu kominn með þennan fínan geitarbúning.

Öllu gríni sleppt þá var þetta bara nokkuð skemmtilegt. Skemmtilegast finnst mér þegar börn á öðrum deildum sem ég þekki lítið ganga upp að mér af fyrra bragði og tilkynna mér það að ég hafi leikið Kiðakið.

Læt fylgja með mynd sem sannar sigurinn. Þarna er ég að ganga yfir brúnna, búinn að sannfæra tröllið um að éta næstu geit og tilbúin að fara og bíta gras.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Áskorun

Hetjan hann faðir minn hljóp NYC Marathon síðasta sunnudag. Lauk hann herlegheitunum á tímanum 4:03:20 sem þykir góður tími.

Í tilefni þess skoraði hann á mig að hlaupa með sér Kaupmannahafnarmaraþon þann 18. maí næstkomandi. Gekk hann það langt að skrá mig í hlaupið án minnar vitneskju.

Ég er ekki enn búinn að ákveða hvort ég eigi að taka þetta verkefni af mér. Þetta kitlar óneitanlega mikið.

Verst finnst mér að undirbúningstímabilið fyrir þetta hlaup er yfir köldustu vetrarmánuði hérna heima.

Ætla íhuga þetta aðeins, læt ykkur vita í lok janúar.

Eigið góða helgi.